Minkurinn mætti náttúrulega alltof seint en hún var búinn að borða sem var bót í máli. Allir stigu um borð í bílanna þrjá. Pabbi Snædísar og pabbi Kristínar keyrðu og svo að sjálfsögðu sveitarfólið á Langaljót sínum. Á leiðinni hafði sveitin samband sín á milli með talstöðvum og voru kallmerkin fyrir Langaljót "Mammagæs", bíll Snædísar hafði kallmerki "Blái hvalurinn" og bíll Krístínar var "Hvíti hesturinn".
Að sjálfsögðu var svakalega vont veður á leiðinni sem bara versnaði þegar við nálguðumst Fljótstunguna. En á leiðarenda komumst við og þá þustu margir út til að létta á blöðrunni enda höfðu þrenglsi og stanslaust vatnsveður á leiðinni gert hlandsprengdum meðlimum sveitarinnar afar erfitt fyrir.
Í Fljótstungu komum við okkur fyrir í litlum skálum og hituðum kakó og fórum í spil, spjölluðum og fífluðumst. Allir skriðu í bólið um og eftir miðnætti enda þreytan farinn að segja til sín eftir daginn og bílferðina. Framundan var strembin dagur í hellaferð.
Ræs var klukkan átta við hávær mótmæli en að lokum komust allir framúr. Ætlunin var að skoða hellinn Víðgelmi. Brottför frá Fljótstungu var um hálf tíu og við hófum ferð niður í myrkrið í Víðgelmi um klukkan tíu eftir stuttan göngutúr þangað. Erlendur, pabbi Kristínar Maríu, fór yfir reglunar í hellinum og svo hófst leiðsögnin.
Víðgelmir er 1,6 km á lengd og rúmmál hans er álíka og Smáralindin. Við þurftum að skríða yfir flughála steina, sáum grýlukerti sem stóðu upp úr gólfinu, skoðum hraunkerti og hraunstrá. Allt í hellinum var stórkostlegt og hvelfingarnar risastórar. Ferðin tók 4 tíma inn að botni Víðgelmis og tilbaka, við fórum 50 metra niður fyrir yfirborðið. Allir voru sammála um að ferðin í hellinn væri mögnuð og að þrátt fyrir að það hefði verið rosalega erfitt að fara um hellinn þá hefði það sannarlega verið þess virði.
Eftir ferðina í gegnum Víðgelmi fengu allir sér að borða og svo drifum við okkur í sund í Húsafelli. Þar réðust allir á pottinn sem því miður var rétt volgur en engu að síður var gott að skríða ofan í pottinn. Eftir smá stund fór okkur að leiðast að sitja í pottinum og tókum á það ráð að hlaupa hringi í einum hringlaga pottinum. Þetta varð til þess að svakalegur svelgur myndaðist í pottinum og allir í pottinum hringsnérust hring eftir hring. Þvílíkt fjör. Potturinn var undir rennibrautinni og sveitin er rétt mátulega rugluð til þess að nota rennibrautina um leið og fullt af fólki er fyrir neðan og hefur enga stjórn á því hvar það er í pottinum vegna þess að það er fast í hringiðu. Að sjálfsögðu slösuðust mjög margir, Ragnheiður lýsti þessu svo lystavel.
"Ég rak hausinn í rennibrautina og það var rosalega sárt, mér sortnaði fyrir augum og ég fór að gráta. En um leið þá snérist ég í hring eftir hring og ég var að hlægja vegna þess að það var svo gaman. Þannig að ég var um leið grátandi og hlægjandi og snérist hring eftir hring."
Ruglað stuð í Húsafelli og svo fórum við tilbaka. Brytarnir tóku til starfa við að búa til pítsur sem að brögðust mjög vel þegar þær voru að lokum tilbúnar. Allt étið upp til agna og brytarnir voru ekki fyrr búnir að gera pítsu þegar þeir fóru að búa til súkkulaðiköku. Restin af sveitinni var í hálfgerðu reiðuleysi fram að kvöldvöku sem var stutt en góð. Eftir kvöldvöku komu brytarnir með súkkulaðiköku með súkkulaðikremi á kökunni og á andlitinu. Afar girnilegt. Kakan var frábær og ógeðslega mikið af henni. Við vígðum Rakel inn í sveitina og borðuðum köku eftir það. Um miðnætti voru flestir farnir að geispa mikið og menn fóru að týnast í holurnar sínar.
Klukkan er níu og kominn tími til að vakna. Ekki mikil hrifning en að lokum komust allir framúr. Sveitarfólið fór í kaffi upp á bæ og kom tilbaka klukkan klukkan hálf tólf og þá var ekki búið að gera neitt í að taka til mér til ómældrar ánægju. En þá var líka tekið til óspilltra málanna við að taka til. Súpan var sett á og þegar hún var tilbúin þá var hún sett út á pall til að éta. Ekki voru allir jafn hrifnir af því að éta úti en svona er þetta. Að lokum voru allir tilbúnir og komið að brottför.
Við stoppuðum við Hraunfossa og Barnafoss á leiðinni og höfðu allir afar gaman að því að skoða fossanna. Heimferðin tókst vel og komum við þreytt en sæl heim.